Skráning er nú hafin á tvö spennandi námskeið sem Sátt stendur fyrir á næstunni. Fyrra námskeiðið er um Sáttamiðlunarferlið, og er það endurtekið frá því í vor vegna fjölda áskorana og verður haldið þann 27. september kl. 18:00-20:00, en seinna námskeiðið viku seinna, eða miðvikudaginn 4. október, frá kl. 18:00-20:00 þar sem fjallað verður um innleiðingu sáttamiðlunar.
Sáttamiðlunarferlið
Sáttamiðlun er aðferð til lausnar ágreiningi, sem aðilar taka sjálfviljugir þátt í, einn eða fleiri, í trúnaði, og með hjálp óháðs og hlutlauss sáttamiðlara komast sjálfir að samkomulagi um lausn ágreiningsins, sem þeir meta viðunandi fyrir báða aðila, gegnum skipulagt og mótað ferli.
En hvernig fer þetta ferli fram? Hvað er það sem gerir sáttamiðlun svona árangursríka? Á þessu námskeiði verður farið yfir það hvernig hefðbundið ferli sáttamiðlunar lítur út og sérstaklega horft á þætti eins og opnun sáttamiðlunar, upplýsingaöflun og spurningatækni. Fjallað verður um hvernig hægt er að nýta sáttamiðlun í mismunandi aðstæðum, t.d. vinnudeilum, fjölskyldudeilum eða fasteignamálum. Farið verður í gegnum raunhæf dæmi og hentar námskeiðið bæði fyrir þá sem vilja rifja upp sáttamiðlunarkunnáttu sína en er einnig opið öllum þeim sem vilja læra meira um það hvernig sáttamiðlunarferlið fer fram.
Svavar Pálsson, Sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra hafði þetta að segja um námskeiðið: „Afar áhugavert námskeið um brýnt viðfangsefni sem mikilvægt er að efla í samfélaginu.“
Innleiðing sáttamiðlunar
Sáttamiðlun nýtur vaxandi vinsælda sem leið til þess að leysa ágreinings- og deilumál. Flestir íslenskir samningar hafa ákvæði um varnarþing, en mun færri samningar kveða sérstaklega á um notkun sáttamiðlunar eða annarra leiða til þess að leysa ágreiningsmál. Innleiðing sáttamiðlunar er skynsamleg og hagkvæm leið til þess tryggja að friðsamleg úrlausn deilumála sé reynd áður en farið er með mál fyrir dómstóla, með tilheyrandi kostnaði og óþægindum.
Námskeiðið fjallar um kosti þess að innleiða ákvæði um sáttamiðlun, í stað þess að grípa til úrræðisins eftir að deila hefur komið upp. Þá er farið yfir hvernig hægt sé að innleiða sáttamiðlunarákvæði í samninga, hvernig slík ákvæði geta litið út og hvaða atriði þarf að semja um svo að ákvæðið sé sem skilvirkast. Einnig er fjallað um innleiðingu sáttamiðlunar í samskiptaferlum fyrirtækja eða stofnana, sem getur orðið hluti af vinnustaðamenningunni. Sérstök áhersla er lögð á hvað þarf að varast við innleiðinguna og hvað við getum lært af nágrannaþjóðum okkar þegar kemur að innleiðingu sáttamiðlunar.
Námskeiðið er opið öllum sem vilja fá betri mynd af því hvernig hægt sé að innleiða sáttamiðlun sem úrræði til lausnar deilumála.
Fullt verð á eitt námskeið 9.900 kr.
Verð á bæði námskeiðin saman 14.900 kr.
Greiðandi félagsmenn í Sátt starfsárið 2017-2018 fá afslátt af námskeiðsgjaldi og greiða aðeins 4.900 kr. fyrir stakt námskeið og 8.900 kr. fyrir bæði námskeiðin saman.
Skráning á annað eða bæði námskeiðin fer fram hér
Leiðbeinandi á báðum námskeiðum er Lilja Bjarnadóttir, formaður Sáttar og eigandi Sáttaleiðarinnar.