Hlutverk og skyldur sáttamiðlara
Sáttamiðlari skal í hvívetna gæta hlutleysis og jafnræðis og þannig skapa skilyrði sem hjálpa deiluaðilum að leysa deiluna á uppbyggjandi hátt.
Sáttamiðlari liðkar fyrir og stýrir umræðum en leggur ekki sitt eigið mat á samskiptin eða sker ekki úr um hvernig deilan skuli leyst, líkt og dómari gerir í dómsmáli.
Sáttamiðlarar fara eftir siðareglum sem Sátt hefur lagt fyrir og samþykkt og eru byggðar á alþjóðlegum viðmiðum.
Samningur um sáttamiðlun er vanalega gerður í upphafi sáttamiðlunar og deiluaðilar ásamt sáttamiðlara undirrita.
Starfandi sáttamiðlarar sem eru félagar í Sátt eru þó nokkrir og margir hverjir sérhæfðir. Smelltu hér til að finna sáttamiðlara.
Fagdeild sáttamiðlara innan Sáttar
Eftirfarandi var samþykkt á aðalfundi Sáttar þann 31. mars 2017
Félagsmenn sem lokið hafa námi í sáttamiðlun geta einnig sótt um aðild að fagdeild sáttamiðlara innan Sáttar. Félagar í fagdeild Sáttar skulu hafa lokið háskólaprófi. Félagsmenn í fagdeild Sáttar geta óskað eftir því við stjórn félagsins að komast á lista yfir starfandi sáttamiðlara sem birtur er á heimasíðu félagsins.
Félagsmaður sem óskar eftir að fara á listann skal lýsa því yfir með skriflegum hætti að hann muni fylgja siðareglum Sáttar að öllu leyti og sinna starfi sínu sem sáttamiðlari af kostgæfni og fagmennsku. Jafnframt skal hann leggja fram ferilskrá og staðfestingu á námi á sviði sáttamiðlunar, auk upplýsinga um sérhæfingu á sviði sáttamiðlunar sem birtar eru undir nafni viðkomandi á heimasíðunni ef beiðni hans er samþykkt.
Sáttamiðlari skal hafa lokið viðeigandi menntun á sviði sáttamiðlunar sem nemur að lágmarki 5 ECTS einingum. Stjórn Sáttar skal meta í hvert sinn hvort að menntun félagsmanns uppfylli framangreint skilyrði, en einnig er heimilt er að líta til annarrar menntunar og reynslu sem nýtist sáttamiðlara í störfum sínum.