Sátt hefur gefið út siðareglur sáttamiðlara.
Allir starfandi sáttamiðlarar skulu fara eftir siðareglunum og eru hvattir til þess að skýra viðskiptavinum sínum frá þeim.
Sáttamiðlun er málsmeðferð þar sem sáttamiðlari að frumkvæði aðila leiðir ferlið og aðstoðar þá við að semja sjálfir um lausn á ágreiningi sínum.
Sáttamiðlara ber að stuðla að jafnræði með aðilum og sýna þeim virðingu.
Sáttamiðlari er bundinn þagnarskyldu um allt sem fram kemur í sáttamiðluninni og í tengslum við hana, nema aðilar semji um annað eða lög krefjist. Það sama á við um fundi sáttamiðlara með hvorum aðila um sig.
Sáttamiðlari skal áður en sáttamiðlun hefst ganga úr skugga um að aðilar hafi skilið hvað felst í sáttamiðlun og undirritað „Samning um sáttamiðlun.”
Sáttamiðlari er ekki ráðgjafi aðila, tekur ekki afstöðu til ágreinings þeirra og hefur ekki það hlutverk að útkljá ágreininginn.
Sáttamiðlara ber ekki skylda til að grípa inn í ef aðilar finna lausn á deilu sinni sem er frábrugðin því sem líklegt er að yrði niðurstaða dómstóls eða stjórnvalds. Sáttamiðlara ber heldur ekki skylda til að tjá sig um sterka eða veika þætti í málflutningi aðila.
Aðilar taka þátt í sáttamiðlun af fúsum og frjálsum vilja. Hvor/hver þeirra sem er, sem og sáttamiðlari, geta hvenær sem er ákveðið að binda endi á sáttamiðlunina
Sáttamiðlari skal vera hlutlaus, óhlutdrægur og óháður aðilum og ágreiningsmálum þeirra.
Sáttamiðlari skal, eftir því sem tilefni er til, bæði fyrir sáttamiðlun og meðan á henni stendur upplýsa aðilana um það sem hugsanlega getur haft áhrif á hlutleysi hans, óhlutdrægni og sjálfstæði.
Komi upp réttmætur vafi um hlutleysi sáttamiðlara, óhlutdrægni eða sjálfstæði, skal sáttamiðlari binda endi á sáttamiðlunina.
Sá sem hefur komið að ágreiningi sem sáttamiðlari getur ekki eftir það gætt hagsmuna annars aðilans í máli sem tengist ágreiningnum.
Sáttamiðlara er skylt að fara eftir siðareglum þessum.
Sáttamiðlari skal í samvinnu við aðila skapa sem bestar aðstæður fyrir framgang máls þess sem til umfjöllunar er.
Sáttamiðlari skal hafa lokið námskeiði á vegum Sáttar eða sambærilegu námi sem félagið viðurkennir. Sáttamiðlara ber að viðhalda sem best þekkingu sinni og færni sem sáttamiðlara.