Hvað er sáttamiðlun?

Sáttamiðlun er aðferð til lausnar ágreiningi, sem aðilar taka sjálfviljugir þátt í, tveir eða fleiri, í trúnaði, og með hjálp óháðs og hlutlauss sáttamiðlara komast sjálfir að samkomulagi um lausn ágreiningsins, sem þeir meta viðunandi fyrir báða aðila, gegnum skipulagt og mótað ferli

Hvenær hentar sáttamiðlun?

Sáttamiðlun í einkamálum hentar í margs konar málaflokkum og er m.a. beitt í fjölskyldumálum, nágrannadeilum, árekstrum á vinnustað og skólum. Sáttamiðlun er einnig notuð í opinberum málum m.a. vegna afbrota ungra afbrotamanna. Einnig er hægt að beita sáttamiðlun í alþjóðlegum málum, t.d. í deilum milli ríkja og ólíkra menningarheima. Sáttamiðlun er mikið notuð á Norðurlöndunum, í Evrópu, Norður-Ameríku og Ástralíu.

Hugmyndafræði

Hugmyndafræði sáttamiðlunar er einföld og felst í því að deiluaðilar leysa deiluna sjálf, en sáttamaður aðstoðar.  Litið er á deiluaðila sem sérfræðingar í sinni deilu og því best til þess fallna til að leysa vandann með hjálp hlutlauss sáttamiðlara. Þátttaka deiluaðila skal vera af fúsum og frjálsum vilja og allt sem fram fer í sáttamiðlun er trúnaðarmál.

Sáttamiðlun er ævaforn aðferð til að leysa ágreining og var líklega uppgötvuð fyrir tíma Gamla testamentisins. Orðið sáttamiðlun eða to mediate á Grísku þýðir að standa á milli. Allir þekkja að það getur verið gagnlegt að standa á milli fólks í átökum en sáttamiðlun hefur verið enduruppgötvuð og nú talin skilvirkari, hagkvæmari og að mörgu leyti uppbyggilegri leið til að leysa ágreining en aðrar aðferðir.

Það sem skiptir mestu máli er að deiluaðilar hafi vilja til að leysa deiluna, hafi sáttavilja. Það er því ekki aðalatriði að sáttamiðlun endi með sátt þótt flestir óski þess heldur að fólk ræði saman og í það minnsta reyni sitt besta til að leysa ágreininginn. Góður sáttamaður heldur utan um sáttaferlið og gætir þess að fólk ræði saman á uppbyggjandi hátt og sé lausnarmiðað. Sáttamaður á ekki að finna lausnina fyrir fólk nema hann sé sérstaklega beðinn um það, af öllum sem taka þátt, eftir miklar umræður. Að ná sáttum veltur að hluta til á hæfileikum sáttamannsins en einnig á því hversu sáttfúst fólk er. Reynslan sýnir að flestir ná sáttum þó þeir séu svartsýnir á sátt í upphafi sáttamiðlunar.

 

Ferli sáttamiðlunar

Sáttamiðlun er sveigjanlegt ferli og hægt er að sníða það að óskum aðila hverju sinni. Hér gefur að líta 6 skref í hefðbundnu ferli sáttamiðlunar. 

Sáttamiðlun er oftast haldin á hlutlausum stað og á tíma sem hentar öllum deiluaðilum. Sáttamiðlun tekur að jafnaði 2-4 klukkutíma og byrjar sáttamaður á því að útskýrir hvernig sáttafundurinn gengur fyrir sig.

Allir fá nægan tíma til að segja frá sinni hlið á ágreiningnum á meðan hinir hlusta. Ekki er tímarammi á þessum þætti sáttamiðlunar og getur fólk talað stutt eða lengi um allt sem tengist ágreiningnum.

Hér byrjar fólk að ræða saman, draga fram ,,staðreyndir” í málinu og kannski ásakar hvort annað um eitthvað misjafnt. Fólk útskýrir líka af hverju það er uppnámi og gerir væntanlega ákveðnar kröfur.

Hér tekur umræðan nýja stefnu og horft er til framtíðar. Spurt er: ,,hvað þarf að gerast héðan í frá?". Deiluaðilar búa til verkefnaskrá um hvaða mál þarf nauðsynlega að leysa eigi sættir að nást.

Aðilar fara yfir verkefnaskránna lið fyrir lið og finna hugmyndir að lausnum sem síðan eru ræddar, þær aðlagaðar og prófaðar nýjar leiðir til að komast að niðurstöðu sem allir aðilar eru sáttir við.

Ef aðilar hafa náð að finna lausn á ágreiningnum þá er skrifaður sáttasamningur sem inniheldur allar þær ákvarðanir sem teknar hafa verið. Allir viðstaddir skrifa undir samninginn og fá afrit af honum. Að lokum fer sáttamaðurinn yfir árangurinn, minnir fólk á næstu skref og óskar þeim góðs gengis.

Smelltu á myndirnar til að lesa meira