Forsaga- sáttameðferð og sérfræðiráðgjöf

Sérfræðiráðgjöf dómsmálaráðuneytisins og sýslumannsembætta sem hófst árið 2001 lauk formlega þann 30. júní 2013.

 

Upphaf hennar má rekja til tilraunaverkefnis sem hófst árið 2000 þegar tveir sálfræðingar sem sérhæft höfðu sig í fjölskylduráðgjöf, voru fengnir til embættis sýslumannsins í Reykjavík til að veita ráðgjöf foreldrum sem þangað leituðu og deildu um forsjá og umgengni barna sinna.

 

 

Tilraunaverkefnið skilaði góðum árangri og úrræðið var tekið inn í barnalög með lögum nr. 18/2001. Fjöldi mála hjá sýslumanninum í Reykjavík á tímabilinu 1. janúar til 30. júní 2013 var 81 mál.

Sáttameðferð og sérfræðiráðgjöf sýslumanna samkvæmt lögum nr. 61/2012 um breytingu á barnalögum sem tóku gildi 1. janúar 2013

Foreldrar hafa undanfarin ár kallað eftir aukinni fræðslu og ráðgjöf í tengslum við skilnaðar- og sambúðarslitamál. Með nýjum úrræðum í barnalögum um ráðgjöf og sáttameðferð er komið til móts við þessar óskir um aukna þjónustu og aðstoð við foreldra sem slíta samvistir eða deila um málefni barna sinna. Úrræðin eru ólík en bæði stefna að því að gera foreldrum kleift að koma til móts við þarfir barna sinna og hjálpa foreldrum að setja hagsmuni þeirra og velferð í öndvegi þegar ágreiningur kemur upp.

Í barnalögum er nú kveðið á um að sýslumaður geti boðið foreldrum ráðgjöf sérfræðings í tilteknum málum sem koma til meðferðar hjá sýslumanni og að sýslumaður skuli bjóða sáttameðferð í tilteknum málum. Með sáttameðferðarúrræðinu voru bundnar vonir við að fækkun yrði á deilumálum fyrir sýslumönnum og dómstólum, með öllu sem því álagi og streitu sem alla jafna fylgir. Vonir stóðu til að sáttameðferðar – og sérfræðiráðgjafarúrræðið yrði til þess að foreldrum myndi takast í sem flestum tilvikum að finna sameiginlega lausn á ágreiningi sínum sem best hentaði hag og þörfum barna þeirra. Um nýmæli er að ræða að foreldrum sé skylt að reyna leið sáttameðferðar til lausnar ágreiningi áður en lengra er haldið.

Hjá sýslumanninum í Reykjavík hófst undirbúningur að innleiðingu verkefnisins snemma á árinu 2013 og um mitt ár var ráðið í störf sálfræðings og félagsráðgjafa til að sinna þjónustunni ásamt löglærðum fulltrúum embættisins en mikil eftirspurn er eftir henni. Þá hafa hinir nýju sérfræðingar, Bóas Valdórsson, sálfræðingur, og Þórdís Rúnarsdóttir, félagsráðgjafi, sinnt sérfræðiráðgjöfinni og þjónustu við önnur sýslumannsembætti. Dagana 13. til 16. maí 2013 var haldið námskeið í sáttamiðlun fyrir sýslumenn og þá fulltrúa þeirra sem myndu starfa við sáttamiðlun. Námskeiðið var haldið á vegum Ingibjargar Bjarnadóttur, lögmanns og sáttamanns og fyrrverandi formanns félagsins Sáttar. Þar fjölluðu innlendir og erlendir sérfræðingar um úrræðið og aðferðir við að ná sem mestum árangri við beitingu þess. Námskeiðið stóð í alls fjóra daga og sóttu það rúmlega 20 manns.

Frá því í byrjun júlí 2013, þegar ráðið var í störf sálfræðings og félagsráðgjafa, fram til ársloka 2014 stofnuðust alls 410 sáttameðferðarmál fyrir utan sérfræðiráðgjafarmál önnur sem voru á sama tímabili alls 96. Það er því ljóst að starfsmenn hafa öðlast talsverða reynslu á stuttum tíma og það er mat embættisins að mjög vel hafi tekist til og árangur af starfseminni sé langt umfram væntingar.

 

  1. janúar til 30. júní 2013:  81 mál
  2. júlí til 31. desember 2013:  192 mál (þar af sáttameðferð 150)
  3. janúar til 31. desember 2014:  315 mál (þar af sáttameðferð 261)

 

Reykjavík, 10.02.2015

F.h. sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu,

Þórdís Rúnarsdóttir,félagsráðgjafi og Bóas Valdórsson, sálfræðingur