Hvað þarf að hafa í huga fyrir sáttamiðlun?
Sáttamiðlun er form af samningaviðræðum með aðstoð hlutlauss aðila og til þess að sáttamiðlunin skili sem mestum árangri er gott að mæta undirbúin(n) á sáttamiðlunarfund.
Undirbúningur getur t.d. falist í því að gera sér grein fyrir hvaða útkomu þú vilt helst fá út úr sáttamiðluninni, hver er óskastaðan að loknu sáttaferli og hver væri staðan ef ekki tekst að semja? Þegar þetta er komið er gott að spyrja sig af hverju þetta er það sem þú vilt, þ.e. hvaða hagsmunir liggja að baki þessari útkomu?
Hvaða markmið hefur þú fyrir sambandið við gagnaðila og hverjir eru mögulegir sameiginlegir hagsmunir ykkar?
Hvaða efnisatriði eru það sem þú vilt vera viss um að verði rædd á sáttafundinum (gott er að skrifa þau niður). Hér mætti líka skrifa niður mögulegar spurningar um atriði sem þú ert ekki viss um, sem ef til vill væri hægt að varpa ljósi á í sáttamiðlunarferlinu. Slíkt er gott til þess að forðast að draga ályktanir áður en ferlið hefst og mæta með opinn huga í sáttamiðlunarferlið.
Einnig er gott að taka saman helstu gögn sem skipta máli, þar sem það á við, og mæta með þau á fundinn.
Til þess að sáttamiðlunin sé sem skilvirkust er gott að kynna sér ferlið vel áður en farið er á sáttafund. Einnig er gott að kynna sér siðareglur sáttamiðlara. Hér til hliðar má sjá dæmi um samning um sáttamiðlun sem settur var saman af félagsmönnum í Sátt og er frjálst að nota hann við sáttamiðlunarferlið. Smelltu á myndina til þess að hlaða niður formi fyrir samning um sáttamiðlun.