Með Ingibjörgu Bjarnardóttur er fallinn frá öflugur félagsmaður Sáttar, fagfélags sáttamanna. Félagið var stofnað í nóvember 2005 og var Ingibjörg einn helsti hvatamaður að stofnun þess og fyrsti formaður félagsins en hún sinnti formennsku í félaginu til ársins 2014. Ingibjörg var óþreytandi í vinnu sinni fyrir Sátt og full af eldmóði við að breiða út sáttamiðlun sem raunhæfa leið til lausnar ágreiningi í íslensku samfélagi. Í formannstíð hennar stóð Sátt m.a. fyrir tveimur viðamiklum námskeiðum fyrir verðandi sáttamenn þar sem fengnir voru til landsins mikilsvirtir fræðimenn í sáttamiðlun frá Norðurlöndunum og Bretlandi. Einnig var haldin hér á landi Norræn ráðstefna, fjölmörg styttri námskeið og fræðslufundir undir styrkri stjórn Ingibjargar.
Ingibjörg var okkar helsti fræðimaður í sáttamiðlun. Hún flutti ótal erindi um málið og var m.a leiðbeinandi meistaranema í lögfræði sem skrifuðu um sáttamiðlun. Hún leiddi starf Sáttar af röggsemi á fyrstu árum þess og sýndi þar mikla þrautseigju og kraft. Hún missti aldrei sjónar af markmiðinu og hugsjóninni um að gera sáttamiðlun að raunhæfum kosti í íslensku samfélagi. Ingibjörg vann störf sín fyrir Sátt og sáttmiðlun alla tíð án endurgjalds og sinnti þeim samhliða lögmannsstörfum sínum sem oft á tíðum þurfti jafnvel að víkja vegna starfa hennar að framgangi sáttamiðlunar.
Sátt stendur í mikilli þakkarskuld fyrir starf Ingibjargar í þágu félagsins. Félagsmenn þakka fyrir samfylgdina við hana og votta fjölskyldu hennar samúð um leið og þeir kveðja formann sinn með virðingu.