Þau ágreiningsmál sem koma til sáttamiðlunar eru mjög fjölbreytt. Neðangreind tilvik, sem flest áttu sér stað í Danmörku, gætu allt eins vel hafa gerst hér á landi.
Trésmiður gerði tilboð í að innrétta ris þannig að úr yrðu tvö herbergi. Til þess þurfti að setja upp veggi, einangrun og glugga. Af fjárhagsástæðum ætlaði húseigandinn að vinna hluta af verkinu sjálfur, einkum lokafrágang innréttingarinnar. Þegar iðnaðarmaðurinn hófst handa kom í ljós að gólfið í risinu dúaði og nauðsynlegt reyndist að styrkja það til þess að unnt væri að búa í herbergjunum. Styrking gólfanna var ekki hluti af tilboði trésmiðsins, en húseigandinn áfelltist hann fyrir að hafa ekki sagt sér áður en hann hófst handa að ekki væri hægt að nota herbergin án þess að styrkja gólfið fyrst. Trésmiðurinn hætti því sem hann var byrjaður á og stefndi húseigandanum. Í því dómsmáli var dómkvaddur matsmaður. Þegar málið hafði verið fyrir dómstólum í nokkurn tíma var ákveðið að reyna sáttamiðlun. Á þriggja tíma sáttafundi tókst að ná samningi um það að trésmiðurinn fékk greidda út í hönd þá vinnu sem hann hafði innt af hendi, samið var um fast verið fyrir styrkinguna á gólfinu, sett var trygging fyrir kröfu trésmiðsins og að lokum var samið um fresti, þannig að ákveðið var hvenær ákveðnum hlutum verksins skyldi lokið, einnig þeim hlutum sem húseigandinn ætlaði að inna af hendi. Það var heldur betur ánægður húseigandi, sem gat þannig fengið herbergin kláruð handa börnum sínum.
Arkitekt stefndi húsbyggjendum, hjónum, til greiðslu 800.000 króna fyrir vinnu við teikningar að viðbyggingu. Húsbyggjendurnir vildu ekki greiða. Ekkert var að teikningunum, en ekki var hægt að reisa viðbygginguna fyrir það fé sem húsbyggjendurnir höfðu gert ráð fyrir til verksins. Báðir aðilar höfðu leitað sér lögmannssaðstoðar en mættu án lögmanna á sáttafundinn.
Á sáttafundinum segir arkitektinn allt í einu: Nú er ég farinn! Þið getið fengið þetta frítt eða greitt fjárhæð að eigin vali. Ég þéna meira á því að sinna vinnunni minni.
Sáttamaðurinn bað arkitektinn að fara ekki alveg strax.
Deiluaðilar skiptust á allnokkrum tilfinningaþrungnum sjónarmiðum. Þá óskuðu húsbyggjendurnir eftir því að ræða einslega við sáttamanninn og fóru með honum yfir ýmis sjónarmið varðandi málið. Lögmaður hjónanna hafði sagt þeim að þau væru með býsna öruggt mál í höndunum. Sáttamaðurinn sagði að væri þeim alveg sama um verk arkitektsins þá gætu þau tekið tilboði hans um að greiða ekki neitt og ráðið sér annan arkitekt. Í reynd vildu þau nýta sér þjónustu þessa arkitekts. Sáttamaðurinn fékk þau til að hugsa málið fram og til baka út frá þörfum sínum og áhyggjum og bað þau að ræða þessi álitaefni sín á milli í einrúmi.
Eftir nokkrar vangaveltur tilkynntu húsbyggjendurnir að þeir vildu greiða arkitektinum alla fjárhæðina, með vöxtum. Hjónin útskýrðu að þau skildu nú mun betur að heildarkrafa arkitektsins var sanngjörn þegar litið var til þeirrar vinnu sem hann hafði lagt í teikningarnar. Ennfremur vildu þau gjarna fá að nýta sér þjónustu hans aftur. Að auki hafði hús þeirra hækkað í verði þannig að þau gátu fjármagnað dýrari viðbyggingu.
Athugasemdir: Það er óvenjulegt að stefndi, þrátt fyrir að honum hafi verið boðið að greiða ekki neitt eða fjárhæð að eigin vali, ákveði að greiða alla kröfuna og það með vöxtum. Ekki leikur vafi á því að þetta mál leystist þar sem málsaðilar gátu útskýrt sjónarmið sín hvor fyrir öðrum alveg inn að skinni. Þannig gat hvor um sig séð ágreiningsefnið frá sjónarhóli hins og eftir að húsbyggjendurnir höfðu velt málinu fyrir sér sáu þeir að reikningur arkitektsins var sanngjarn. Í dómsmáli er mögulegt að reikningur arkiteksins hefði verið lækkaður og hann hafði margoft boðið húsbyggjendunum að greiða ekki neitt eða fjárhæð að eigin vali fyndist þeim það sanngjarnt. Arkitektinn sinnti starfi sínu af köllun og var mjög fær. Stolt hans hafði verið sært og það hafði úrslitaþýðingu fyrir hann. Vildu hjónin nýta sér þjónustu arkitektsins við framhald verksins urðu þau að tryggja að hann ynni fyrir þau af heilindum. Það hefðu þau ekki átt víst hefðu þau greitt minna en það sem arkitektinn taldi sanngjarnt því þá hefði stolt hans enn verið sært.
Kona hafði misst annað augað og fékk augnígræðslu. Það gekk erfiðlega að fá líkama hennar til að þiggja ígræðsluna. Þegar henni leið að lokum betur ákvað hún að fara í ferðalag, en það hafði hún ekki getað leyft sér áður. Hún fór til sjóntækjafræðings og keypti vökva til að hreinsa augað eftir að hafa gert honum grein fyrir ástandi sínu og til hvers hún ætlaði að nota vökvann. Á ferðalaginu notaði hún vökvann til að hreinsa augað, en við það versnaði mjög ástand augans og þegar hún kom heim var ástand hennar svo slæmt að nærri lá að hún missti ígrædda augað. Hún var lengi veik eftir þetta og talsverðan tíma tók þar til augað hafði jafnað sig og hún hafði náð heilsu.
Konan höfðaði mál á hendur sjóntækjafræðingnum fyrir að hafa selt henni vöru sem ekki mátti láta drjúpa beint í augað eins og henni hafði verið gert grein fyrir að ætti að nota vökvann þegar hún keypti hann. Á sáttafundinum lagði konan mesta áherslu á að fá viðurkenningu á öllum þeim þjáningum sem hún hafði þurft að þola og þar með að fá afsökunarbeiðni frá sjóntækjafræðingnum. Hann féllst á þetta. Þau náðu samkomulagi um lága fjárhæð sem væri einungis táknræn, plástur á sárið. Dómsmálið fékk þannig, fyrir tilstilli sáttamiðlunarinnar, niðurstöðu sem var viðunandi fyrir báða aðila og gætti virðingar beggja.
Hálfopinber stofnun stefndi tveimur hugbúnaðarfyrirtækjum og krafðist þess að þau greiddu sér í sameiningu (in solidum) 90.000.000 króna í skaðabætur. Stofnunin taldi þetta vera það tjón sem hún hefði orðið fyrir við það að hugbúnaðarfyrirtækin neituðu að standa við tilboð um afhendingu tiltekins hugbúnaðar í samræmi við nánari lýsingu í útboðsgögnum.
Stefnan var 16 blaðsíður og dómskjöl með henni 35. Greinargerðin var jafnlöng og álíka mörg dómskjöl með henni. Málsaðilar samþykktu að málið færi í sáttamiðlun. Ríflega þremur mánuðum síðar hófst sáttamiðlunin með tveimur sáttamönnum (löglærðum) einum lögmanni fyrir hvern málsaðila og 8-9 starfsmönnum sem komu að málinu af hálfu stofnunarinnar og hugbúnaðarfyrirtækjanna.
Við sáttamiðlunina skapaðist fljótt góður andi þar sem allir þrír málsaðilar gátu, í allnokkrum smáatriðum, gert grein fyrir því hvernig málið horfði við frá þeirra sjónarhóli og fengu jafnframt að koma að sjónarmiðum sem ekkert vörðuðu lagaleg atriði. Eftir u. þ. b. fjögurra tíma samræður á mjög jákvæðum nótum tókst málsaðilum að ná sátt þar sem annar stefndu greiddi 1/3 hluta kröfunnar og hinn átti að efna sinn hluta af sáttinni með því að veita stefnanda endurgjaldslausa ráðgjöf í tiltekinn tíma. Það var sérstaklega mikilvægt fyrir þann síðarnefnda að sýna stefnanda fram á að stefndi væri fyrirtæki með mikinn faglegan metnað og gæti afhent gæðavöru. Stefnandi sýndi, með því að fallast á sátt með þessu efni, að hann hafði fullan trú á faglegum metnaði stefnda.
Tvö skipafélög höfðu í meira en fimm ár átt í deilum vegna útreiknings á fraktkostnaði fyrir vörur, sem annað fyrirtækið hafði flutt fyrir hitt. Þau deildu um það hvernig ætti að reikna fraktkostnaðinn út, hversu mikið magn af vörum hefði farið um borð í skipið og hversu mikið hafði verið skilið eftir í lestunarhöfninni, hvaða frakt ætti að greiða, og hvort sá sem flutt var fyrir ætti gagnkröfu vegna þeirrar vöru sem skilin var eftir í lestunarhöfninni. Málið hafði velkst fyrir dómstólum í tvö ár og dómskjöl voru orðin um 100 talsins.
Eftir þriggja tíma sáttamiðlun náðist samkomulag um hvaða frakt ætti að greiða og að sá sem flutt var fyrir féll frá gagnkröfu sinni á flytjandann. Deiluaðilar, sem ekki höfðu unnið saman í fimm ár, frá því að deilan hófst, ákváðu að taka samstarfið upp að nýju.
Heilbrigðisstarfsmaður gerði leigusamning við fyrirtæki sem sá um útleigu og innréttingu á atvinnuhúsnæði. Þegar leigjandinn flutti inn kom í ljós að nokkrar innréttingar vantaði til þess að hann gæti nýtt húsnæðið. Hann varð því fyrir miklum kostnaði við að breyta húsnæðinu og bæta það. Eftir tíu ára leigu sagði leigjandinn upp húsnæðinu. Í tengslum við flutning hans úr húsnæðinu reis ágreiningur um það milli hans og leigusalans í hvernig ástandi ætti að skila rýminu, meðal annars hvort leigusalinn gæti yfirtekið innréttingar sem leigutakinn hafði sett upp.
Á endanum stefndi leigutakinn leigusalanum og krafði hann um endurgreiðslu tryggingargreiðslunnar svo og greiðslu kostnaðar við að breyta húsnæðinu og bæta það. Þegar málsaðilar hittust á sáttafundinum lagði leigutakinn áherslu á það að honum hefði fundist hann svikinn þegar hann flutti inn og þurfti að leggja mikið fé og vinnu í breytingar á húsnæðinu og leigusalinn lagði áherslu á það að þrátt fyrir að hann hefði margreynt, hafi honum ekki tekist að fá leigutakann til að ræða við hann um framhald leigusamningsins. Þegar þessi atriði lágu fyrir gátu deiluaðilar einbeitt sér að fjárhagsuppgjörinu og náðu samkomulagi þar að lútandi. Sáttamiðlunin tók 2½ tíma.
Sölumanni hjá heildsala með íþróttavörur var sagt upp á þeim grundvelli að hann hefði brotið innri reglur vinnuveitandans og misnotað upplýsingar, þar sem hann hefði vistað í tölvu sinni upplýsingar bæði um sölutölur og viðskiptavini. Fullyrðing um misnotkun gagnanna kom fram þegar í ljós kom að sölumaðurinn hafði sótt um vinnu hjá fyrirtæki sem að hluta til var í samkeppni við vinnuveitanda hans. Sölumaðurinn mótmælti því að það væri nokkuð óeðlilegt við það að hann hefði þessar upplýsingar og að þetta væru upplýsingar sem hann þekkti hvort eð væri úr viðskiptaferðum. Verkalýðsfélag hans sendi vinnuveitandanum bréf þar sem krafist var launa á uppsagnarfresti ásamt tilheyrandi gjöldum vegna órættmætrar brottvísunar, samtals að fjárhæð 2.000.000 krónur.
Lögmaður verkalýðsfélagsins stakk upp á því að reynd væri sáttamiðlun áður en málið færi lengra og var vinnuveitandinn sammála því enda bauðst verkalýðsfélagið til að greiða þóknun sáttamannsins. Á sáttafundinum voru starfsmaðurinn og vinnuveitandinn, lögmenn þeirra og fulltrúi verkalýðsfélagsins. Á fjögurra tíma fundi náðist niðurstaða sem ekki hefði verið hægt að ná í dómsmáli.
Á sáttafundinum kom fram að sölumaðurinn og heildsalinn voru báðir mjög leiðir yfir því að samstarfi þeirra skyldi ljúka á þennan hátt. Ástæða uppsagnarinnar var rædd í þaula og þá kom ýmislegt í dagsljósið sem málsaðilar höfðu ekki áður rætt um. Deiluaðilar urðu sammála um að viðhalda góðu sambandi sínu og virðingu hvor fyrir öðrum. Einnig náðist samkomulag um laun á uppsagnarfresti og vinnuveitandinn lét starfsmanninum í té ýmsan íþróttabúnað sem nokkurskonar bætur. Í samningnum stóð einnig að starfsmaðurinn ætti að koma á hádegisverðarfundi, innan 14 daga, milli fyrri vinnuveitandans og nýja vinnuveitandans þar sem að líklegt væri að þeir gætu átt samstarf á mörgum sviðum þar sem fyrirtækin voru ekki bara keppinautar, heldur seldu vöru og þekkingu, þannig að þeir gátu haft gagnkvæma hagsmuni af samstarfi.
Í dómsmáli hefði ekki verið unnt að ná niðurstöðu sem þessari, sem ekki einvörðungu leysti hina persónulegu deilu starfsmannsins og fyrri vinnuveitanda hans heldur opnaði einnig möguleika fyrir viðskiptasamstarfi er kæmi báðum til góða. Dómsmál hefði bara snúist um fjárhagslegt uppgjör. Með því að ná samkomulagi komu deiluaðilar sér undan þeirri áhættu sem felst í dómsmáli, þar á meðal kostnaðinum sem það hefur óhjákvæmilega í för með sér auk þess sem verkalýðsfélagið fékk einnig nokkuð þar sem félagsmaður þess gekk ánægður frá samningnum og félagið sparaði sér laun lögmanns í langdregnum málaferlum. Lögmaður félagsins, sem hafði stungið upp á sáttamiðluninni fékk málið leyst á skjótan hátt. Það sama má segja um vinnuveitandann og lögmann hans.
Stórt danskt fyrirtæki hafði ráðið til starfa sérfræðing í mannauðsstjórnun með það fyrir augum að breyta menningu fyrirtækisins þannig að starfsfólkið gegndi þar aðalhlutverki. Nokkru síðar var mannauðssérfræðingurinn rekinn fyrir að hafa brotið trúnaðarskyldu gagnvart starfsfólkinu en það hafði trúað honum fyrir ýmsu í einkasamtölum sem hann átti við það til undirbúnings verkefni sínu. Brottför sérfræðingsins frá fyrirtækinu var tilkynnt innan fyrirtækisins og einnig til viðskiptavina án þess að hann hefði áhrif á hvernig staðið var að þeirri tilkynningu.
Sérfræðingurinn höfðaði þá dómsmál þar sem hann taldi uppsögnina óréttmæta. Ákveðið var að reyna sáttamiðlun og þar náðist samkomulag um greiðslu til hans. Enn fremur var samið um texta fréttatilkynningar, sem var í kjölfarið send til allra þeirra er höfðu fengið fyrri fréttatilkynninguna. Þetta atriði var mjög mikilvægt fyrir faglegan orðstír starfsmannsins og sjálfsvirðingu. Samningatriði eins og þessu hefði ekki verið hægt að ná fram í dómsmáli.